Carbfix hlýtur alþjóðleg verðlaun

28. júl 2020

Orkuveitan

Carbfix hlaut hin alþjóðlegu Keeling Curve verðlaun fyrir aðferð sína við kolefnisförgun, þ.e. steinrenningu CO2 í bergi. Verðlaunin eru veitt árlega brautryðjendum sem hafa náð eftirtektarverðum árangri í aðgerðum í þágu loftslagsmála.

Verðlaunaafhendingin fór fram í beinni útsendingu á vef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar PBS - Public Broadcasting Service síðastliðna nótt. Fram komu ýmsir þekktir einstaklingar sem hafa látið til sín taka í loftslagsmálum, en fyrirsætan, leikkonan og aðgerðasinninn Amber Valletta og loftslagssérfræðingurinn Jeff Berardelli kynntu verðlaunin.

Verðlaunin mikið fagnaðarefni

„Það er mikið fagnaðarefni að hljóta þessi verðlaun og mikilvæg viðurkenning á starfinu okkar hjá Carbfix. Það er ljóst að heimurinn er að kalla eftir fjölbreyttum lausnum við loftslagsvandanum og verðlaunin undirstrika að aðferðin hefur mikla möguleika á að vaxa hratt á heimsvísu,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. „Fjölmörg áhugaverð verkefni voru tilnefnd í ár og mikill heiður að hafa orðið fyrir valinu. Við höfum verið að sjá sívaxandi áhuga á Carbfix kolefnisförgunaraðferðinni og verðlaunin munu vonandi auka vitund á aðferðinni sem einni af þeim tæknilausnum sem nýta má til að sporna gegn loftslagsvánni.“

Mældi styrk koldíoxíðs í andrúmslofti

Verðlaunin eru kennd við Dr. Charles D. Keeling sem hóf að mæla styrk koldíoxíðs í andrúmslofti árið 1956 og tók eftir því að styrkurinn jókst frá ári til árs. Mælingarnar voru með fyrstu óyggjandi sönnunargögnum fyrir uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum sem hann ályktaði að stafaði af bruna mannkyns á jarðefnaeldsneyti.

Carbfix aðferðin

Carbfix aðferðin felst í því að CO2 leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500-800 m dýpi í basaltjarðlög, þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda. Aðferðin hefur verið sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn leið til að binda kolefni varanlega. Orkuveita Reykjavíkur hefur frá árinu 2007 leitt þróun aðferðarinnar í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar rannsókna- og vísindastofnanir. Orka Náttúrunnar, dótturfélag OR, hefur nú rekið lofthreinsistöð og niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun samfellt í fimm ár með góðum árangri. Carbfix ohf. hefur frá árinu 2019 verið rekið sem sjálfstætt dótturfélag OR.