Ársfundur OR í beinu streymi

7. mar 2023

Orkuveitan

Ársfundur Orkuveitu Reykjavíkur verður haldinn í Hellisheiðarvirkjun undir yfirskriftinni Landsins Lífsgæði þann 16. mars n.k frá klukkan 13:30. Eitt af hlutverkum Orkuveitunnar er að hugsa vel um auðlindina sem okkur er treyst fyrir og við tökum það hlutverk okkar alvarlega. Við erum bæði að huga að því hvernig megi afla aukinnar orku en líka að fræða og miðla því hvernig við getum nýtt orkuna betur. Á fundinum munum við meðal annars velta þessu fyrir okkur og fara yfir viðburðarríkt ár þeirra fyrirtækja sem mynda OR samstæðuna.

Fundurinn verður í beinu streymi á netinu og verður blanda af hefðbundnum ávörpum og umræðum með framkvæmdastjórum fyrirtækisins.

Rún Ingvarsdóttir samskiptastýra Veitna mun stýra fundinum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur mun opna fundinn á ávarpi sínu. Að því loknu fer Bjarni Bjarnason forstjóri OR yfir helstu atriði úr nýbirtu uppgjöri samstæðunnar en þetta verður síðasti ársfundur Bjarna sem mun láta af störfum um næstu mánaðarmót. Verðandi forstjóri Sævar Freyr Þráinsson mun taka þátt í umræðum.

Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna, Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix og Hera Grímsdóttir framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá OR verða einnig hluti af umræðuhluta fundarins ásamt þeim Benedikt K. Magnússyni framkvæmdastjóra fjármála OR og Ellen Ýr Aðalsteinsdóttur framkvæmdastýra mannauðs og menningar OR.

Þá verða unnin innslög með viðtölum við Erling Frey Guðmundsson framkvæmdastjóra Ljósleiðarans og Berglindi Rán Ólafsdóttir fráfarandi framkvæmdastýru Orku náttúrunnar.

Nýr stjórnarformaður OR, Gylfi Magnússon, mun síðan loka fundinum með ávarpi sínum.

Líkt og fyrr segir verður hægt að fylgjast með í beinu streymi og hvetjum við fólk til þess að skrá sig á viðburðinn hér.

Einnig verður hægt að mæta í Hellisheiðarvirkjun og fylgjast með ársfundinum en þá er mikilvægt að skrá sig hérna.

Við hlökkum afskaplega til þess að sjá ykkur öll hvort sem það verður í rafheimum eða raunheimum og velta því fyrir okkur hvernig við getum nýtt þau lífsgæði sem landið okkar hefur upp á að bjóða – okkur öllum til heilla.