Nýr Íslandsmeistari í hrygningu

21. jan 2022

Orkuveitan
Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur hjá rannsóknarfyrirtækinu Laxfiskum fylgist vel með laxinum í Elliðaánum.

Haustið 2021 hrygndi 75 sentimetra löng laxahrygna í Elliðaánum sem sló öllum íslenskum löxum við í hrygningu, því hún var að hrygna fimmta árið í röð. Hrygnan er því Íslandsmeistari í hrygningu laxa hérlendis. Fyrri methafar voru örfáar hrygnur sem luku hrygningu í fjórgang, þ.m.t. ein í Elliðaánum sem hefði hrygnt í fimmta sinn hefði henni ekki verið landað af veiðimanni sumarið fyrir hrygninguna. Rannsóknir sýna að varanleg tæming Árbæjarlóns vorið 2020 hefur fjölgað hrygningarstöðvum í Elliðaánum því í farvegi Árbæjarkvíslar á fyrrum áhrifasvæði lónsins er laxinn byrjaður að hrygna, þ.m.t. umræddur Íslandsmethafi í hrygningu laxa.

Ítarleg vöktun

Orkuveita Reykjavíkur fékk Jóhannes Sturlaugsson líffræðing, sem rekur rannsóknarfyrirtækið Laxfiska, til að fylgjast með áhrifum þess að Árbæjarlónið var tæmt varanlega eftir að ljóst varð að rafmagn yrði ekki unnið úr Elliðaánum í fyrirséðri framtíð. Ákvörðun OR var meðal annars byggð á því að þegar rafmagnsvinnslu væri lokið hefði fyrirtækið ekki lengur heimild til þeirra inngripa í náttúru dalsins sem fylgja því að fylla Árbæjarlónið að hausti og tæma að vori. Það hafði verið gert frá því um 1970 en áratugina þar á undan voru Elliðaárnar oft á tíðum nánast þurrar á milli Árbæjarstíflu og Rafstöðvarinnar sem er um kílómetra niður af stíflunni.

Hrygning í Árbæjarkvísl staðfest

Þrátt fyrir almennt slaka laxagengd hér á landi síðasta sumar var fiskigengd í Elliðaárnar ágæt, samkvæmt rannsókn Jóhannesar. Bættar aðstæður eftir að lónið var tæmt skilaði því að „Hrygning laxins á því svæði Árbæjarkvíslar sem áður var ekki aðgengilegt til hrygningar vegna Árbæjarlóns var staðfest.“ Hrygning er nú gerleg í farvegi Árbæjarkvíslar á fyrrum áhrifasvæði Árbæjarlóns því frumforsendur hrygningarinnar hvað varðar straumlag, dýpi og botngerð eru nú fyrir hendi, öfugt við það sem reyndin var þegar Árbæjarlón var til staðar. Bætt botngerð þess svæðis batnar nú hröðum skrefum eftir að set hætti að hlaðast þar upp líkt og tilfellið var þegar Árbæjarlón var til staðar. Sú endurheimt árbúsvæða leggur grunninn að hrygningu laxins og bættum uppvaxtarskilyrðum seiða á því svæði.

Íslandsmeistari

Í einni af mörgum rannsóknarferðum Jóhannesar um Elliðaárnar fangaði hann áðurnefnda 75 sentimetra langa laxahrygnu til merkingar í ágústbyrjun. Hrygnan hrygndi í fimmta skiptið haustið 2021 og er því Íslandsmethafi laxa í hrygningu. „Skemmst er frá því að segja að legustaðirnir við Árbæjarstíflu í hylnum neðan stíflunnar og í lænuhylnum strax ofan hennar, voru hennar helsta athvarf í ágúst, september og október. Þegar kom fram í nóvember gekk hún upp af því svæði til hrygningar ofar í Árbæjarkvísl án þess þó að ganga upp úr Árbæjarkvísl og skilaði sér síðan aftur niður á vöktuðu legustaðina við stífluna í desember,“ segir í skýrslu Jóhannesar.

Íslandsmetið er fallið og nú er þess beðið hvort hin frjósama hrygna slái eigið met haustið 2022. Rannsóknir Jóhannesar á lífríki Elliðaánna á vegum Orkuveitu Reykjavíkur halda áfram.