Milljón á mann á ársfundi OR

14. apr 2021

Orkuveitan
Brynhildur Davíðsdóttir stjórnarformaður OR.
© Atli Már Hafsteinsson

Fjárhagsstyrkur Orkuveitu Reykjavíkur hefur aukist verulega síðasta áratuginn og eru eignir fyrirtækisins nú metnar á 394 milljarða króna. „Það er um það bil milljón á hvern mann í landinu,“ sagði Bjarna Bjarnason forstjóri OR á opnum ársfundi fyrirtækisins í dag. Á fundinum, sem bar yfirskriftina „Hvað gerir 100 ára frumkvöðull næst“ var hvort tveggja litið um öxl, til þeirra miklu samfélagsbóta sem veiturnar skópu, en einnig til þess hvaða verkefni blasa við í starfsemi þeirra til að mæta áskornunum samtímans og framtíðarinnar.

Alger viðsnúningur

Bjarni rifjaði upp að fyrir tíu árum var fyrirtækið komið að fótum fram eftir höggið sem það hlaut í hruninu. Endurreisn þess hafi hins vegar tekist vel og það sé forsenda þess að OR og dótturfyrirtækin – Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix – hasli sér völl í verkefnum framtíðar. „Frá því áratug, þegar Planinu var hleypt af stokkunum, hefur eigið fé OR fimmfaldast og vaxið að jafnaði um rúmar 40 milljónir á dag,“ benti Bjarni á. Samhliða hafi vitund um jafnréttismál, umhverfismál og samfélagsábyrgð styrkst mikið í menningu fyrirtækjanna.

Landvinningar hjá Carbfix

Bjarni sagði að traustur rekstur væri forsenda þess að Orkuveitan tæki virkan þátt í helstu verkefnum framtíðar. Þar vísaði hann meðal annars til loftslagsvárinnar en nýjast fyrirtækið innan samstæðu OR, Carbfix, er einmitt stofnað til höfuðs henni. Nú þegar sé fyrirtækið í samstarfi við ON og fleiri að binda koltvíoxíð varanlega í bergi, hvorttveggja úr jarðgufunni sem nýtt er í Hellisheiðarvirkjun og einnig sem gleypt er beint úr andrúmslofti. Bjarni sagði að frekari tíðinda væri að vænta alveg á næstunni af frekari landvinningum Carbfix aðferðarinnar hér á landi.

Miklar fjárfestingar framundan

Ársfundurinn var haldinn rafrænt og sendur beint úr frá Hellisheiðarvirkjun. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ávarpaði fundinn og lagði í erindi sínu áherslu á samstarf OR og Reykjavíkurborgar í risavöxnum innviðaverkefnum á næstu árum, meðal annars undir merkjum Græna plans borgarinnar.

Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, gerði meðal annars það sérkennilega ár sem er að baki að umfjöllunarefni. Hún benti á að fyrirtækið hefði með ýmsum hætti brugðist skjótt við vanda sem kórónuveirufaraldurinn skóp. Þannig hafi verið ákveðið að ráðast í svokallaðar viðspyrnufjárfestingar til að bregðast við vaxandi atvinnuleysi, arðgreiðslur til eigenda hefðu verið auknar til að koma á móts við þeirra erfiðaleika vegna samdráttar og síðast en ekki síst hafi OR sem vinnustaður brugðist þannig við að enginn brestur varð á grunnþjónustu fyrirtækjanna vegna faraldursins.

Upptaka aðgengileg

Fundinum lauk á pallborðsumræðum stjórnenda allra fyrirtækjanna innan OR-samstæðunnar undir stjórn Bergs Ebba Benediktssonar.

Upptaka af fundinum er aðgengileg hér.