31. mar 2025
OrkuveitanOrkuveitan hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna vindorkukosts sem fyrirtækið hefur nú til skoðunar við Dyraveg á Hellisheiði, innan Sveitarfélagsins Ölfuss. Með matsáætluninni gefst leyfisveitendum og fagstofnunum, sem og hagsmunaðilum og almenningi, kostur á að veita verkefninu umsögn.
Orkuveitan leggur áherslu á að eiga í góðu og upplýstu samtali við alla hagaðila og kappkostar að fá fram skoðanir og sjónarmið sem flestra sem munu nýtast fyrir þróun og hönnun verkefnisins. Orkuveitan hvetur því öll til að veita verkefninu umsögn.
Orkuveitan vill halda því til haga að engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort að til framkvæmda komi. Um er að ræða tillögu að virkjunarkosti sem bíður niðurstöðu verkefnastjórnar rammaáætlunar. Ef kosturinn fellur í nýtingarflokk og áður en ákvörðun um framkvæmd verður tekin, er nauðsynlegt að ráðast í ítarlegar rannsóknir og meta áhrif á náttúru, nærumhverfi og samfélag auk þess sem leggja þarf mat á hagkvæmni verkefnisins.
Nánar má lesa um verkefnið við Dyraveg á vef Orkuveitunnar.
Rannsóknir á vindgæðum og umhverfi
Undirbúningur að vindorkukostinum við Dyraveg er einungis á allra fyrstu skrefum. Áður en ákvörðun um framkvæmd er tekin þarf meðal annars að gera rannsóknir og afla nákvæmra gagna um vindafar, sem nýtt verða t.d. við hönnun vindorkukostsins og greiningu á hagkvæmni hans.
Orkuveitan auglýsti fyrir nokkru útboð um kaup og uppsetningu 125 metra hás masturs sem notað verður við mælingarnar. Við uppsetningu verður stuðst við fyrirliggjandi innviði þar sem mögulegt er en vegslóði verður lagður að mastrinu. Uppsetning mastursins tekur um tvær til fjórar vikur. Vindmælingarnar munu standa yfir í að hámarki tvö ár, en að þeim loknum verður mastrið fjarlægt.
Samhliða þarf að ráðast í ítarlegar rannsóknir á mögulegum umhverfisáhrifum. Áætlað er að slíkar rannsóknir taki 2–4 ár en fyrsta skrefið að þeim er áðurnefnd matsáætlun.
Hvað felst í matsáætlun?
Ef framkvæmd er matsskyld þarf lögum samkvæmt að meta þau áhrif sem hún kann að hafa á umhverfið. Umhverfismatsferlið hefst á gerð matsáætlunar en með henni kynnir framkvæmdaraðili, í þessu tilfelli Orkuveitan, framkvæmdina og lýsir því hvernig hann áformar að standa að umhverfismati hennar.
Framkvæmdaraðili leggur svo matsáætlun fram til Skipulagsstofnunar sem kynnir hana almenningi og birtir á Skipulagsgátt og á vef stofnunarinnar og leitar umsagnar umsagnaraðila eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda og fagstofnana. Almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gefst einnig kostur á að veita umsögn.
Skipulagsstofnun gefur svo út álit um matsáætlun sem inniheldur, eftir því sem við á hverju sinni, leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu.
Orkufyrirtæki í almannaeigu
Orkuveitan er orku- og veitufyrirtæki í almannaeigu sem hefur um áratugaskeið verið burðarás í orkuöflun fyrir samfélagið. Hlutverk Orkuveitunnar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er treyst fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Í ljósi aukinnar þarfar og eftirspurnar eftir grænni orku er það ekki bara ábyrgt heldur nauðsynlegt að leita frekari orkukosta og virðist vindorka vera vel til þess fallin.
Sem fyrirtæki í almannaeigu er Orkuveitan meðvituð um þá ábyrgð sem fylgir því að sjá samfélaginu fyrir orku. Félagið vill tryggja að orkuöflun sé unnin með hagsmuni almennings og umhverfisins að leiðarljósi. Þess vegna leggur Orkuveitan mikla áherslu á samráð og samvinnu við sveitarfélög, stjórnvöld og almenning við þróun og framkvæmd slíkra verkefna.
Það er Orkuveitunni mikilvægt að hlusta á allar raddir og viðhalda góðu samtali til að tryggja að ólík sjónarmið komi fram og hægt sé að vinna saman að farsælli framtíð
Orkuveitan minnir á að vinna við rammaáætlun byggir á lögbundnu ferli þar sem tillögur eru m.a. metnar af faghópum verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Ferlið byggir á miklu samráði en í samræmi við lög um rammaáætlun (lög nr. 48/2011) ber verkefnisstjórn m.a. að hafa samráð við opinberar stofnanir, hagaðila og félagasamtök.