29. maí 2019
OrkuveitanTillaga með nafninu „Með orkunni úr ánni er tertan bökuð“ var í dag valin til verðlauna í hugmyndasamkeppni um sögu- og tæknisýningu í Elliðaárdal. Það var Orkuveita Reykjavíkur sem gekkst fyrir samkeppninni í samstarfi við Hönnunarmiðstöð. Fyrirhuguð sýning mun nýta hina tæplega aldargömlu rafstöð í Elliðaárdal auk nærliggjandi húsa.
Hópinn sem átti verðlaunatillöguna skipa þau Ármann Agnarsson, grafískur hönnuður, Brynhildur Pálsdóttir hönnuður, Kristín María Sigþórsdóttir upplifunarhönnuður, arkitektarnir Eva Huld Friðriksdóttir og Magnea Guðmundsdóttir á Teiknistofunni Stiku, Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur og Kristbjörg Anna Þórarinsdóttir eðlisfræðingur. Verðlaunaféð nam tveimur milljónum króna.
Hugmyndasamkeppnin var í tveimur þrepum. Í fyrra þrepi voru sex hópar valdir til að skila endanlegum tillögum og í þeim síðari valdi dómnefnd á milli þeirra. Við verðlaunaafhendingu í húsakynnum OR við Bæjarháls í dag fluttu Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, stutt ávörp áður en Hildur Björnsdóttir, formaður dómnefndar, gerði grein fyrir niðurstöðu hennar. Í umsögn dómnefndarinnar segir meðal annars:
Allar keppnistillögurnar sex eru til sýnis í anddyri Orkuveituhússins við Bæjarháls næstu vikur.
Elliðaárdalurinn er vagga veitustarfsemi í borginni. Í árnar var fyrst sótt neysluvatn árið 1909, Rafstöðin var tekin í notkun árið 1921 og frá 7. áratug 20. aldar hefur hitaveitan sótt vatn i borholur í dalnum. Jafnframt er dalurinn eitt fjölsóttasta útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu en starfsmenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur hófu skógrækt í dalnum árið 1951.
Markmið OR með sögu- og tæknisýningu er að fólk eigi greiðan aðgang að þessu einstaka svæði í borginni sem er í almannaeigu, auka upplifun og ánægju og miðla fróðleik. Orkuveita Reykjavíkur vill rækta ræturnar og standa vörð um dalinn, lífríki hans og sögu.
Hugmyndin um sögu- og tæknisýningu kom fram í skýrslunni „Sjálfbær Elliðaárdalur“ sem Reykjavíkurborg gaf út árið 2016. Þá um haustið samþykkti borgarstjórn aðgerðaáætlun byggða á skýrslunni og árið eftir hófst undirbúningur af hálfu OR með samþykkt stjórnar um að ráðast í hugmyndasamkeppni. Í gildi er viljayfirlýsing milli OR og Borgarsögusafns, sem meðal annars rekur Árbæjarsafn, um samstarf að því að gera sögu veitureksturs í borginni skil og gera hana aðgengilega.
Heildartillagan er í senn viðkunnanleg, lífleg, forvitnileg og áþreifanleg. Hún fléttar saman náttúru dalsins og þróun borgarsamfélagsins við sögu veitnanna. Mikil virðing er borin fyrir staðnum og þeim húsakosti sem fyrir er, en hann nýtur verndar að hluta. Nýting og útfærsla húsanna er góð auk þess sem samspil einstakra hluta svæðisins er vel hugsað. Gróðurhús sem tengir saman tvær byggingar mun létta yfirbragð svæðisins, veita skjól og vera fræðandi um nýtingu jarðvarma til ræktunar. Grafískar lausnir og uppdrættir af staðsetningu lagna eru upplýsandi og fullar af leikgleði. Tillagan í heild er vönduð og smekkleg og tekur mið af því að OR er fyrirtæki í almannaeigu og leggur áherslu á ábyrga meðför fjármuna.
Sögu- og tæknisýningin er vel hugsuð, bæði hvað varðar sögulega tengingu og eins almenn áhrif vatns-, rafmagns- og hitaveitu á menn og samfélög. Skipulag sýningarinnar í rýminu er mjög vel leyst og flæði gott. Leikur, gagnvirkni og samvinna gegnir lykilhlutverki í sýningunni sem gerir hana að nýrri upplifun hverju sinni. Notast er við fjölbreyttar og skemmtilegar lausnir til að miðla efni sýningarinnar og eru gestir hvattir til að vera skapandi og prófa sig áfram. Með þeim hætti nær sýningin til allra aldurshópa og verður áhugaverður viðkomustaður fyrir skólahópa.
Tillagan tryggir snjalla tengingu svæðisins við Árbæjarsafn, báðum útivistarsvæðum til framdráttar. Þá er í tillögunni gert ráð fyrir spennandi útisvæði, tilrauna- og vatnsleikjasvæði fyrir börn á öllum aldri sem og veitingarekstri. Lagt er upp með að skapa líflegan grænan áningarstað fyrir fólk á öllum aldri á einu mikilvægasta útivistarsvæði borgarinnar. Elliðaárdalur er einstakur staður og jafnvel margslungnari en flestir ímynda sér. Með vinningstillögunni verður sannarlega til staður sem mun auðga huga, hjörtu og leikgleði borgarbúa þar sem þeir geta notið samveru og fræðst í gegnum uppgötvun og leik.