Orkuveitan eflir heilsu og vellíðan starfsfólks

13. sep 2024

Orkuveitan
Unnur Jónsdóttir, leiðtogi í öryggis- og heilsumálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
© Jóhanna Rakel

Orkuveitan hlaut fyrr á þessu ári viðurkenningu sem Heilsueflandi vinnustaður, sem felur í sér skuldbindingu til að stuðla að góðri heilsu og vellíðan starfsfólksins. Unnur Jónsdóttir, leiðtogi öryggis- og heilsumála hjá Orkuveitunni, útskýrir hvað þetta verkefni felur í sér og hvers vegna það er svona mikilvægt.

Heilsueflandi vinnustaður – Hvað þýðir það?
„Heilsueflandi vinnustaður hefur það markmið að skapa vinnuumhverfi sem stuðlar að góðri heilsu og vellíðan starfsfólks,“ segir Unnur. „Viðmiðin fyrir Heilsueflandi vinnustað eru unnin af sérfræðingum hjá Embætti landlæknis, Vinnueftirlitinu og Virk. Þau eru hugsuð til að aðstoða fyrirtæki við að átta sig á og meta þá þætti sem hafa áhrif á heilsu og vellíðan í vinnunni.“

Kortlagning og samstarf innan fyrirtækisins
Til að innleiða þetta verkefni á árangursríkan hátt var settur á laggirnar stýrihópur innan Orkuveitunnar sem samanstóð af fulltrúum úr öllum öryggis- og heilsunefndum. „Stýrihópurinn vann markvisst að því að kortleggja vinnustaðinn út frá þessum viðmiðum, “ segir Unnur.

Átta gátlistar fyrir betri heilsu
Þættir sem lögð er áhersla á í þessum viðmiðum er skipt upp í átta gátlista. Unnur segir að gátlistarnir séu lykillinn að því að bæta vinnustaðinn. „Við horfum til hollara mataræðis, vellíðunar starfsfólks, öryggis og heilsusamlegs vinnuumhverfis, og margra fleiri þátta. Með því að svara þessum gátlistum og rýna í niðurstöður getum við leitað frekari leiða til að stuðla að betri heilsu og vellíðan starfsfólks.“

Áframhaldandi þróun og framtíðarsýn
„Við erum mjög stolt af því að vera Heilsueflandi vinnustaður,“ segir Unnur að lokum. „En við erum hvergi nærri hætt. Þetta er bara byrjunin. Við munum halda ótrauð áfram að bæta vinnustaðinn okkar, þannig að hann verði ekki bara góður, heldur ennþá betri.“

Með því að innleiða þessar aðgerðir sýnir Orkuveitan að heilsuefling er ekki aðeins stefnumarkmið heldur raunveruleg aðgerðaráætlun til að bæta líðan og heilsu starfsfólks. Þetta er verkefni sem tekur til allra í fyrirtækinu, og Unnur leggur áherslu á mikilvægi þess að halda áfram að þróa og bæta vinnustaðarmenninguna með heilsu og vellíðan starfsfólksins að leiðarljósi.